Átti yndislegan dag í fyrradag, sturta, þvottur og afslöppun í þykku andrúmslofti grunnbúðanna. Seinni hluti leiðangursmanna var að týnast niður fram undir miðnætti. Þeim hafði gengið illa að komast í norðurskarð daginn á undan í skafrenningi og snjókomu og snéru þau því flest við. Í gærmorgun var mjög hvasst í efri grunnbúðunum, klósetttjaldið fauk um koll og það voru svo mikil læti í svefntjöldunum að hópurinn var hálf þvældur og þreytulegur þegar að þau komu hingað í neðri grunnbúðirnar. Eini leiðangursmaðurinn sem eftir er í efri grunnbúðunum er daninn Bo sem ætlar sér að fara súrefnislaus á toppinn og því ætlar hann að halda áfram að strögla þó veðrið sé ekki uppá það besta. Við verðum hinsvegar hér í slökun í dag en svo fer ég að fylgjast með veðurspánni til að komast aftur upp í efri grunnbúðir og halda áfram hæðarbröltinu og undirbúningnum fyrir toppaslaginn.
Leifur og Bo (til vinstri) á blessunarhátíðinni í efri grunnbúðunum
Kv.
Leifur