• Fjölmiðlar
  • Framandi fjöll með Leifi og Vilborgu
  • Leiðangur 2013
  • Um Everest
  • Um Leif Örn
Leifur á Everest 2013

Monthly Archives: April 2013

Sturta, þvottur og afslöppun í neðri grunnbúðunum

Posted on April 30, 2013 by admin

Átti yndislegan dag í fyrradag, sturta, þvottur og afslöppun í þykku andrúmslofti grunnbúðanna. Seinni hluti leiðangursmanna var að týnast niður fram undir miðnætti. Þeim hafði gengið illa að komast í norðurskarð daginn á undan í skafrenningi og snjókomu og snéru þau því flest við. Í gærmorgun var mjög hvasst í efri grunnbúðunum, klósetttjaldið fauk um koll og það voru svo mikil læti í svefntjöldunum að hópurinn var hálf þvældur og þreytulegur þegar að þau komu hingað í neðri grunnbúðirnar. Eini leiðangursmaðurinn sem eftir er í efri grunnbúðunum er daninn Bo sem ætlar sér að fara súrefnislaus á toppinn og því ætlar hann að halda áfram að strögla þó veðrið sé ekki uppá það besta. Við verðum hinsvegar hér í slökun í dag en svo fer ég að fylgjast með veðurspánni til að komast aftur upp í efri grunnbúðir og halda áfram hæðarbröltinu og undirbúningnum fyrir toppaslaginn.

IMG_1458

Leifur og Bo (til vinstri)  á blessunarhátíðinni í efri grunnbúðunum

Kv.
Leifur

Posted in Uncategorized | 1 Comment |

Mikill vindur á fjallinu og hópurinn kominn aftur í hlýtt andrúmsloft neðri grunnbúðanna

Posted on April 30, 2013 by admin

Á laugardaginn ákvað hópurinn að leggja á sig 22 km göngu niður í grunnbúðir þar sem það er hlýrra og örlítið fleiri súrefnismólikúl í andrúmsloftinu. Gangan er falleg en þetta er langur dagur og því er rétt að njóta nokkurra daga hérna áður en gengið er til baka upp í efri grunnbúðirnar en gangan uppeftir mun taka 2 daga.
Svei mér þá ef gróðurlausir melarnir undir jökulkambinum eru ekki fallegri en seinast þegar að við vorum hér. Þá var skítakuldi og erfitt að ná andanum. Nú er loftið þykkt og í samanburði við frostið í efri grunnbúðunum þá er bara hlýtt og notalegt hér. Ætla að njóta þess munaðar að fara í sturtu seinna um daginn þegar það fer að hlýna en það myndi krefjast talsverðrar hörku að reyna slíkt í efri grunnbúðunum.
IMG_1488

Mynd: Leifur Örn (hér má sjá mynd tekna yfir efri grunnbúðirnar)

Ég hefði sjálfur kosið að  dvelja í efri grunnbúðunum í nokkra daga til viðbótar og vera örlítið verr á mig kominn áður en ég færi niður í þykka loftið í grunnbúðunum í 5.200 m. Í þeirri hæð er mögulegt fyrir mannskeppnuna að lifa, halda vikt og jafna sig. Kvillarnir sem eru helst að hrjá mann í hæðinni eru smávægilegir en óþæginlegir. Leiðinlegastur er hóstinn. Við innöndun á köldu loftinu á daginn kveikir maður á hóstaviðbrögðum ein og þegar lagst er útaf á kvöldin en eftir kröftugt hóstakast er maður alveg að kafna. Kvefslím gerir andadráttinn erfiðan þegar lagst er útaf og stundum er betra að setjast upp í svefnpokanum á nóttinni til þess að ná betur að anda. Það er gott að lofa nasaveggjunum að jafna sig aðeins og gróa en þótt að ég hafi borið olíu og feitt krem inn í nasavængina er ég stöðugt að sníta blóði. Eins og oft hefur áreinslan komið af stað frunsu og sólsprungnum vörum. Ekkert af þessu er alvarlegt og mun örugglega koma aftur þegar að ég hækka mig meira og sef í fyrstu búðum í 7.000 m hæð sem er næsta skref í aðlöguninni. Engu að síður er gott að fá smá hvíld í aðstæðum sem reyna ekki eins mikið á líkamann.

Kv Leifur

Posted in Uncategorized | Leave a comment |

Gengið upp í Norðurskarð 7.000m

Posted on April 29, 2013 by admin

Gekk upp í norðursarð á föstudaginn 26. apríl, veðurspáin hafði gert ráð fyrir skafrenningi, nokkuð sterkum vindi og snjókomu seinni partinn. Mér var hugsað til veðurspánnar þegar að sólin skein beint ofan á höfuðið á mér og eina ástæðan fyrir því að vera með vettlinga var að sólberenna ekki á handabökunum.
Það er dágóð ganga úr efri grunnbúðunum inn eftir sléttum jöklinum og inn að bröttum og sprungnum skriðjöklinum sem fellur úr skarðinu. Það vill svo illa til að ég er búinn að týna úrinu mínu með hæðarmælinum, giftingahringurinn minn var reyndar festur við ólina en ég ætla að passa mig að ljóstra því ekki upp. Held þetta verði nú í lagi en það er óþæginlegt að brjóta upp hefðir sem maður er vanur. Undir bröttum höfuðveggnum stoppaði ég með nokkrum Sherpum sem voru að bera útbúnað upp í Skarðið. Einn var með flott hæðarmælisúr á hendinni þannig að ég spurði hann hvað við værum hátt þar sem föstu línurnar voru að byrja. Hann svarar 6.400 m, hmmmm hversu hátt eru þá efri grunnbúðirnar spyr ég og þar sem það er talsverð ganga upp með mesta brattanum og hann svaraði að bragði 6.400 m. Jæja  það er nú ekki hægt að áfellast mann sem skælbrosandi ber bakpoka á stærð við eina spútnik geimstöð og er þar að auki búinn að strappa nokkur tjöld utaná pokann. Þarna stóð ég varla undir sjálfum mér og lét málið niður falla.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

(Mynd: Leifur Örn)

Jökullinn er brattari en hann hefur verið seinustu ár, alla leiðina eru tvöfaldar fastar línur en þó að brattinn sé töluverður verður maður að reyna að standa í fæturna en ekki toga sig upp á línunum.
Lítið af búnaði er kominn upp í búðir 1 í norðurskarði en það á eftir að breytast hratt næstu daga. Í þessari fyrstu heimsókn í 7.000 m. hæð var markmiðið rétt að hreyfa við líkamanum og auka aðlögunina og drífa sig svo til baka niður í efri grunnbúðirnar og sofa þar. Ég seig niður stórann hluta af föstu línunum en þegar aðlögunin verður orðin betri, þannig að ég standi betur í fæturnar og þekki leiðina betur mun ég líklega láta nægja að vefja línunum um hendurnar til þess að geta stjórnað hraðanum á niðurleiðinni.

Farinn að fá mér að borða en sendi meira á eftir…

Kv. Leifur

Posted in Uncategorized | 2 Comments |

Hafast við í efri grunnbúðunum þar til veðrið gengur yfir

Posted on April 26, 2013 by admin

Í gærmorgun var framkvæmd svokölluð Punjab athöfn, en þá hlaða sherparnir mikið altari, setja þar mynd af Everst gyðjunni ásamt ýmsum fórnum. Síðan er beðið um blessun gyðjunnar og leifi frá henni til að reyna við sjálft fjallið, eins er helsti fjallabúnaðurinn blessaður, s.s. broddar, belti og ísexir. Sherparnir fara aldrei á fjallið án þess að hafa framkvæmt þessa athöfn en ætlunin í gærdag var að ganga upp í 7.000 metra og aftur niður. Hópurinn þurfti hinsvegar að snúa við vegna veðurs á skriðjöklinum milli 6.400 m og 7.000.  Því mun hópurinn hafast við í efri grunnbúðunum næstu tvo daga eða þar til veðrið gengur yfir. En eins og Leifur orðaði það í samtali í gærmorgun að þá er þetta leiðangur en ekki ferðalag og því þarf að hafa þolinmæði og aðlaga sig að veðri og vindum til að nálgast þannig markmiðið hægt, en örugglega. Einn sherpinn fór hinsvegar upp í 7.000 m og ætlaði að koma fyrir tjöldum en gat það ekki vegna vinds og snéri því við.
415585_10201038410582010_594871394_o

Hér er mynd af grunnbúðunum í 6.400 m hæð (mynd: Sigrún)
Þegar Leifur var spurður út í fjöldann í efri grunnbúðunum var hann ekki alveg viss en í hópnum hans eru 13 manns sem ætla sér á toppinn en auk þeirra eru allavega 3 kínverskir hópar, 1 frekar stór hópur rússa ásamt örfáum minni hópum. Búnaður og þarfir manna er mjög misjafn en til marks um það má nefna sherpa eins hópsins sem var byrjaður í línuvinnu milli 7.000 og 7.500 m í týpískum garðirkjuhönskum.

Það sem er að frétta af Sigrúnu er að hún er komin aftur til Kathmandu eftir 12 tíma jeppaskölt. Vegurinn er langur og lélegur en markmið dagsins var að komast alla leið á einum degi yfir landamæri Tíbet-Nepal fyrir kl. 16, en þá loka þau. Í tölvupósti frá Sigrúnu segir hún orðrétt “Það fyrsta sem ég gerði er við komum á gistiheimilið var að fara úr, úlpunni, flíspeysunni og ullarbolnum, en í öllu þessu var ég búin að vera í samfellt i 2 vikur, jafnt á nóttu sem og degi!”
Sigrún skildi við Leif í ABC (efri) grunnbúðunum og fannst henni það þónokkuð skrítið. Hún segir aðstæðurnar vera erfiðar þarna í 6.400 m hæð, “það er kalt, yfir 10 stiga frost í tjaldinu á nóttunni, kalt nema þegar sólin skín og loftið er þunnt og maður verður fljótt móður”.

katmandu
Það tekur mikið á bæði líkama og sál að venjast þunna loftslaginu og þó svo að það sé mikið eftir eru margir leiðangursmannana slappir með hósta, höfuðverk og eiga erfitt með að sofa. En okkar maður er hinsvegar stálslegin, hress og kátur og með hausinn í góðu lagi. Sigrún segir að aðstæðurnar séu miklu erfiðari en hún hafði í rauninni gert sér grein fyrir.

Posted in Uncategorized | 1 Comment |

Mikill hitamunur milli dags og nætur í efri Grunnbúðunum

Posted on April 24, 2013 by admin

Þar sem að Leifur Örn er kominn upp úr öllu símasambandi hringdi hann í okkur rétt í þessu í gegnum gervihnattasíma sem hann tók með sér. Leifur sat inn í tjaldi að hvíla sig eftir æfingar dagsins en hann er búinn að vera í 3 nætur í efri grunnbúðum Everest (6.400 m). Leifur sagði líðan sína vera ágæta og svo lengi sem hún væri ekki slæm að þá væri allt gott. Hann er nú farinn að hugsa sér til hreyfings eftir rólegar göngur síðastliðna 2 daga. Auk þess að fara í stuttar göngur hefur Leifur verið að æfa línuvinnu eins og að júmma sig upp og fleira, en þessar æfingar framkvæmir hann á skriðjöklinum. Æfingar sem þessar eru mjög mikilvægar þegar komið er upp í slíka hæð og geta komið að góðum notum þegar það kemur til þess að notast þarf við tæknina sem æfð er. Á morgun ætla Leifur og samferðamenn hans að freista þess að fara upp brattan skriðjökulinn í 7.000 metra hæð og koma svo aftur niður í efri gunnbúðirnar og gista þar.

everestnorthroutemap_ABC
“Sigrún er lögð af stað til Kathmandu og vissulega sakna ég hennar mikið” segir Leifur en hann horfir á björtu hliðarnar þar sem að nú getur hann notið prima loft buxnanna og annars búnaðar á kvöldin útaf fyrir sig.
Mikill hitamunur er milli dags og nætur og til marks um það vaknaði Leifur í hrímuðu tjaldi í -18°C en nú þegar að hann talaði við okkur kl. 10 að íslenskum tíma skein sólin á tjaldið og hitastigið inní tjaldinu var um 36°C. Þetta þýðir það að hitasveiflur milli dags og nætur geti verið rúmlega 50°C og því þarf að huga að mörgu öðru en hæðaraðlögun og æfingum ef allt á að ganga upp.

Þar sem Sigrún er á leiðinni aftur til Kathmandu og svo til Íslands þá eigum við von á nýjum myndum, video bloggum og fleiru svo við munum pósta þessu efni á bloggið og facebook eftir því sem það berst.

Posted in Uncategorized | 2 Comments |

Lögð af stað í millibúðirnar á milli efri og neðri grunnbúða.

Posted on April 19, 2013 by admin

Í fyrradag fórum við niður í rústir  gamla Rongbunk Klaustursins. eins og flest gömul klaustur í Tibet var það sprengt upp í menningarbiltingunni í Kína. Sagan segir að Kínverjar hafi varpað sprengjum á snarbratta hlíðina ofan við klaustrið og valdið gríðalegri skriðu sem eyðinlagði klaustrið. Inn á milli stórgríttra bjarganna eru nokkur hús umvafin bænaflöggum. Úr einu þeirra er innangengt niður í helli undir húsinu. Í hellinum á Indverskur munkur að hafa haft aðsetur fyrir um 1.000 árum og á hann að hafa verið einn sá fyrsti sem kom með Buddha trú til Tibet. Nú hefur heilagur lama aðsetur í hellinum og blessaði bænaflöggin og leiðangursmennina.

Prayer flags at Base Camp
Í dag göngum við uppí millibúðirnar sem eru staðsettar milli efri og neðri grunnbúða. Þó að búðirnar séu án þæginda eins og matartjalds þá munum við vera þar í tvær nætur til að aðlagast hæðinni áður en við höldum áfram upp í efri grunnbúðir sem er í 6.400 m hæð. Við munum bera með okkur svefnpoka, dýnur, dúnúlpur og hlýan fatnað en stærstur hluti farangursins hefur þegar verið fluttur á jakuxum upp í efri grunnbúðir. Nú þegar að við erum að leggja af stað er stilla og talsvert frost en þegar sólin kemur fram úr hlíðum everest getur snarhitnað í sólinni.

Posted in Uncategorized | 1 Comment |

Vinabrautin

Posted on April 18, 2013 by admin

Kínverjar hafa lagt mikla vinnu í vinabrautina, vegurinn milli Tibet og Nepal. Tvöfaldur vegurinn er malbikaður og nær frá sléttum Tibet þar sem leiðin liggur um hrikalegt landslag alla leið niður í skógivaxið Nepal. Nú er hins vegar verið að byggja upp veginn heim að grunnbúðum Everest. Vegurinn kemur til með að liggja í gegnum stórt kínverskt hlið en búið er að byggja tvöfaldan veg 100 km inn að grunnbúðunum. Vegurinn er mjög grófur og í raun seinfarnari en gamli jeppaslóðinn en mér finnst ekki ólíklegt að það eigi eftir að malbika þennan veg. Á leiðinni er farið í gegnum skarð en vanfundið er að finna betra útsýni yfir Himalaya fjöllin. Everest ber þar hæst en þar við hliðina er Lutsi, 4 hæsta fjall jarðar, Makalu vinstra megin og Cho Oyu hægra megin, 5 og 6 hæstu fjöll jarðar. Þar inn á milli má svo finna um 30 7.000 metra fjöll þannig að á tærum morgni eru fallegri útsýnisstaðir vanfundnir.

Meðfram veginum upp í grunnbúðir er verið að reisa rafmagnslínu og eru komnir rafmagnsstaurar alla leið upp í grunnbúðir. Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér, hér á mögulega eftir að rísa risa hótel, með útsýni yfir hæsta fjall jarðar og kannski verða þar súrefnisslöngur í boði fyrir gestina.

TjaldHeimili

Heimilið mitt þessa dagana í grunnbúðum Everest.

Við þessi skrif dettur mér í hug dægurlagatexti eftir snillinginn Magnús Þór Jónsson sem er einhvernveginn á þessa vegu:

Þeir ólmuðust eins og naut og þeir byggðu Miklubraut
og blokkirnar skutust upp til skýja
Menn halda áfram að príla, kaupa búslóðir og bíla
og það er bágt að sjá hvert er hægt að flýja

Kv. Leifur

Posted in Uncategorized | 1 Comment |

Einn sherpinn fékk háfjallaveiki

Posted on April 17, 2013 by admin

Í morgun gengum við frá farangrinum til flutnings upp í efri grunnbúðir. Það er talsvert skipulag sem fylgir því að ákveða hvað á heima á hverjum stað fyrir sig, hvað á að vera uppi í fjalli, hvað í neðri grunnbúðunum og hvað í þeim efri. Farangurinn sem við sendum af stað í dag munum við ekki sjá í nokkra daga því að við eigum eftir að vera hér í grunnbúðunum í einn dag en svo tökum við 3 daga í gönguna uppí efri grunnbúðir til þess að hækka okkur ekki of skart.

Jakuxar á leið með farangur í efri grunnbúðir Everest

En slíkt getur verið hið alvarlegasta mál eins og við fengum að kynnast í gærkvöldi. Einn sherpinn sem verður með okkur í fjallinu veiktist af háfjallaveiki í gær og því varð að flytja hann í snarhasti niður í lægri hæð. Þrátt fyrir að vera að eðlisfari mun betur í stakk búinn til þess að takast á við hæðina en við sem eigum rætur að rekja af láglendinu þá gætti hann ekki að sér og gaf sér lítinn tíma til aðlögunar á leiðinni upp í grunnbúðir í 5.200m hæð og það varð honum að falli. Það hjálpaði honum lítið að hafa klifið Klifið Everest tvisvar sinnum ásamt því að hafa farið á fleiri 8.000m tinda yfir ævina. Staðreyndin er sú að líkaminn verður að aðlagast hæðinni í hvert sinn.

 Mynd frá grunnbúðum Everest
Háfjallaveikin lýsti sér þannig að í gær var sherpinn mjög slappur og þrátt fyrir að vera settur á súrefni náðist ekki að hækka súrefnismettunina í blóðinu og því var brugðist við með því að senda hann niður í lægri hæð. Þetta var þörf áminning til okkar fjallgöngumanna að ofmetnast ekki, gefa okkur góðan tíma og fara rólega yfir.
Posted in Uncategorized | 2 Comments |

Komin í Grunnbúðir Everest

Posted on April 16, 2013 by admin

Við komum í grunnbúðir Everest í gær og byrjuðum á því að koma okkur fyrir. Tjaldsvæðið er ekki ólíkt því að tjalda á miðjum Sprengisandi, samfeld gjóla, gróðursnautt og rikugt. Tjaldbúðirnar eru við sporð Rombuk jökulsins sem er urðarjökull en ísinn á jöklinum er þakinn þykku lagi af mold. Svona snemma á vorin er lofthitinn lár en það nær þó að verða vel heitt í sólinni á daginn en á næturna er talsvert frost og í morgun var tjaldið okkar allt hrímað að innan.

DSC_0461
Hópurinn sem við erum í er með tibeskt tehús sem matar og samkomutjald. Tjaldið er úr jakuxaull en að innan er það klætt með litskrúðugri bómull, málaðar kistur eru notaðar fyrir borð og á miðju gólfinu er kabyssa sem er kynnt með hefðbundnu jakuxataði. Á gaflinum gagnstætt dyrunum er Buddah altari en það var einmitt haldið uppá afmæli kappans í gær en samkvæmt tibesku tímatali er það 15. apríl. Matur og annar aðbúnaður er eins og best verður á kosið, kokkurinn er kínverskur og hálparkokkarnir eru frá Tibet og Nepal.

grunnbudir

Jakuxa lestin fer með búnaðinn upp í efri grunnbúðir á morgun og setur í leiðinni upp einar millibúðir því að vegalengdin og hækkunin er of mikil til þess að fara þetta á einum degi. Þó svo að við eigum eftir að taka tvo daga til viðbótar til aðlögunar í grunnbúðunum munum við samt sem áður senda farangurinn okkar af stað með jakuxalestinni á morgun. Við höldum þó eftir svefnpoka, dúnúlpu og dýnu sem við berum síðan upp í efri grunnbúðir en á leiðinni þurfum við að gista í tvær nætur í millibúðunum til þess að hækka okkur ekki of hratt.
Kveðja Leifur og Sigrún

Posted in Uncategorized | 1 Comment |

Föst í Tingri – Rikke bitin af hundi

Posted on April 14, 2013 by admin

Föst ì Tingri og komumst ekki upp ì grunnbúðir Everest fyrr en à morgun. Glampandi sòl og Tibet skartar sìnu fegursta.

Svo hljóða nýjustu skilaboðin frá Leifi og Sigrúnu.

555011_451753921570384_669112014_n (1)

Það verður stórt stökk fyrir líkamann að færa sig frá þorpinu Tingri í 4.200m hæð og upp í grunnbúðir Everest sem eru í 5.200m hæð. Til þess að undirbúa líkamann þá gengu flestir úr hópnum á “hæðirnar” ofan við bæinn, en þær eru rúmlega 4.800m háar eða álíka yfir sjávarmáli og Mt. Blanc. Nokkrum einstaklingum leið ekki vel í hæðinni í Tingri svo þeir tóku því rólegan dag í nágrenni bæjarins, líkt og við Sigrún gerðum í gær.

Það er ekki bara hæðin sem virðist ætla að hafa áhrif á hópinn því að dönsk kona að nafni Rikke sem stefnir einnig á að klífa Everest lenti svo ólukkulega í því að hundur beit hana hér í Tingri. Til þess að fá viðeigandi sprautur þarf Rikke að fara alla leið baka til Kathmandu en með töfunum á landamærunum er það langur dagur ef það á að takast á einum degi. Það eru spítalar hér í Tibet sem eru mun nær en samkvæmt ferðaheimild hennar líkt og hópsins hér í Tibet hefur hún ekki leifi til þess að ferðast þangað. En það er einnig óvíst að tryggingafélagið hennar viðurkenni spítalana hér í Tibet. Ætli hún sér að koma aftur þarf hún að fá annað boðsbréf frá kínverska fjallasambandinu til þess að geta fengið nýja vegabréfsáritun frá kínverska sendiráðinu í Kathmandu.

Það er dágóð skriffinska sem fylgir ferðalögum um þetta svæði og það þarf augljóslega ekki mikið til þess að raska öllum ferðaáætlunum. Það getur tekið hana allt að viku að komast aftur í hópinn en þá verður hún langt á eftir hópnum í hæðaraðlögun svo það gæti hugsanlega verið að hundsbitið marki endalok ferðarinnar hjá Rikke.

541835_451342314944878_1667010851_n

Létt aðlögunarganga upp í 4.800m. Á hàslèttu Tibet kallast slìkt “smàhòll”. Everest sést greinilega vinstra megin við vörðuna og lengst til hægri er Cho Oyu.

Posted in Uncategorized | 1 Comment |
Next Page »

Pages

  • Fjölmiðlar
  • Framandi fjöll með Leifi og Vilborgu
  • Leiðangur 2013
  • Um Everest
  • Um Leif Örn

Archives

  • October 2013
  • May 2013
  • April 2013
  • March 2013

Categories

  • Uncategorized (40)

WordPress

  • Log in
  • WordPress

Subscribe

  • Entries (RSS)
  • Comments (RSS)

Pages

  • Fjölmiðlar
  • Framandi fjöll með Leifi og Vilborgu
  • Leiðangur 2013
  • Um Everest
  • Um Leif Örn

Archives

  • October 2013
  • May 2013
  • April 2013
  • March 2013

Categories

  • Uncategorized (40)

WordPress

  • Log in
  • WordPress

CyberChimps WordPress Themes

© Leifur á Everest 2013