Þá er Leifur kominn heim eftir vel heppnaðann leiðangur upp Norðurhlíð Everest.
Í tilefni af heimkomu Leifs var haldin formleg móttaka í húsakynnum Íslenskra Fjallaleiðsögumanna að Stórhöfða 33 kl. 18:00 í kvöld. Sigrún og stelpurnar þeirra þrjár tóku á móti Leifi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar (Leifsstöð) og keyrðu hann beint í vinnuna ef svo má að orði komast. Þar var tekið á móti þeim með kampavíni, köldum bjór og risastórum Everest borgara frá Hamborgarabúllunni.
Mynd: Leifur með Everest borgarann frá Hamborgarabúllunni (bestu borgarar í bænum)
Verið er að vinna úr lýsingum frá Leifi þar sem hann fer vel yfir toppadaginn. Við reiknum með því að lýsingarnar birtist í tveimur færslum yfir helgina. Einnig erum við með helling af myndum sem verða birtar að hluta til með næstu greinum en svo er ætlunin að halda myndasýningu í nánustu framtíð þar sem Leifur mun fara yfir leiðangurinn í máli og myndum. Myndasýningin verður auglýst nánar síðar.
Mynd: Leifur á toppnum á Everest
Þó svo það hafi gengið ágætlega að flýta flugum og koma því í kring að Leifur kæmist fyrr heim þá gat nú ekki verið að allt gengið eins og í sögu því farangurinn hans Leifs varð allur eftir í Kathmandu. Farangurinn ætti þó að vera langt á veg kominn og er væntanlegur heim á næstu dögum. Leifur mun þó ekki sitja aðgerðalaus næstu daga því að á morgun á Sigrún konan hans afmæli ásamt því að Hrefna dóttir þeirra er að útskrifast úr MH og því munu veisluhöldin halda áfram á þeim bænum.
Mynd: Sigrún, Leifur og stelpurnar
Mynd: Fjórir Everest farar saman komnir í kvöld, frá vinstri til hægri:
Einar K. Stefánsson, Hallgrímur Magnússon, Leifur Örn Svavarsson, Björn Ólafsson. Á myndina vantar bara Harald Örn Ólafsson og Ingólf Geir Gissurason til að allir Everest farar Íslands væru samankomnir í kvöld.