Fyrir marga er þetta erfiður tími, biðin eftir réttu veðri til þess að leggja á toppinn. Það er mikið af sögusögnum og vangaveltum en enginn hefur náð toppnum hér að norðanverðu og veðrið hefur verið sherpunum erfitt þannig að ekki er búið að klára að koma fyrir línum efst í fjallinu. Kínverjarnir eru búnir að koma sér fyrir í efri grunnbúðunum og stefna á að taka fyrsta veðurgluggan sem gefst. Eins og spáin lítur út núna er það stuttur gluggi um næstu helgi en síðan virðist ætla að verða skaplegt veður í vikunni þar á eftir.Í raun verður hlírra þegar líður á mánuðinn en það má ekki bíða of lengi því að í kjölfarið fara monsúnrigningarnar að skella á.
Mynd: Leifur, beðið eftir hagstæðri veðurspá
Það verður tveggja daga gangur upp í efri grunnbúðir og það er rétt að taka einn hvíldardag þar áður en lagt er í fjallgönguna sjálfa. Ég hugsa að ég leggi af stað upp í efri grunnbúðir á morgun (í dag) til þess að vera nær og geta brugðist hraðar við þegar spáð er góðu veðri. Það er of snemmt að segja til um væntanlegan toppadag en ef veðurspáin eins og hún er núna stenst þá líta dagarnir 22.-23. mái ágætlega út.
kv Leifur

Spennandi.
Gönguhópurinn Toppaðu með 66°N og Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum sendir þér baráttukveðjur og auka orku fyrir endasprettinn. Vonandi náum við að TOPPA á svipuðum tíma! Gangi þér vel!