• Fjölmiðlar
  • Framandi fjöll með Leifi og Vilborgu
  • Leiðangur 2013
  • Um Everest
  • Um Leif Örn
Leifur á Everest 2013

Category Archives: Uncategorized

Ævintýralegir dagar að baki

Posted on May 13, 2013 by admin

Eftir að við kláruðum aðlögunina þá héldum við niður til hvíldar og nú bíðum við eftir veðurglugga til þess að takast á við toppinn. Úr efri grunnbúðunum er langur göngudagur niður í grunnbúðir. Til þess að komast enn neðar tekur við heils dags akstur eftir mjög slæmum vegslóða niður í 4.200 m. Tilgangur ferðarinnar er að gefa líkamanum tækifæri til þess að jafna sig á hóstanum og öðrum líkamlegum kvillum sem fylgja hæðinni. Ein af þeim aukaverkunum sem fylgja hæðinni er að bragðskynið nánast hverfur og allur matur verður hálf bragðlaus sem hjálpar ekki í baráttunni við lystarleysið.

IMG_0609

Mynd: Leifur, komnir aftur í grunnbúðirnar og bíða eftir veðurglugga

Á leiðinni niður stoppuðum við í hádegismat þar sem við gerðum smávæginleg mistök í pöntuninni á matnum. Pantað var sameiginlega fyrir alla en auk þess pantaði hver fyrir sig þannig að borðið var hlaðið réttum. Þarna hefði getað stefnt í óefni en um leið og við fundum hversu vel maturinn bragðaðist og hversu sterkt bragðskynið var brast á átveisla þar sem hver einasti réttur var étinn upp til agna. Þetta lagði línuna fyrir seinustu daga þar sem hópurinn hefur borðað alveg ótrúlega mikið. Þó að ekki hafi tekist að lækna hóstann þá snéru allir endurnærðir til baka í grunnbúðirnar þar sem hin eiginlega bið eftir réttum veðuraðstæðum hefst.

Kv. Leifur

Posted in Uncategorized | 1 Comment |

Hæðaraðlöguninni lokið þrátt fyrir að hafa ekki komist alla leið í 7.700 m

Posted on May 12, 2013 by admin

Þá er hæðaraðlöguninni lokið og rétt að huga að hvíld til að vera heill og tilbúinn í átökin sem fylgja lokaatrenunni á fjallið. Ég var svolítið í vafa yfir því að það hafi vantað 400 hæðarmetra uppá að fylgja þeirri áætlun sem ég var með en hópstjórinn sem leitt hefur 9 leiðangra á fjallið fannst það hálf hjákátlegt. Hann taldi það mikilvægara að mér hafi liðið vel í hæðinni og að vel hafi gengið bæði í klifrinu upp í norðurskarð og eftir hryggnum þannig að ég læt hér við sitja og fer að hans ráðum og held niður á við. Það er dágott erfiði sem fylgir göngunni niður í grunnbúðir. 22 km um torfarnar jökulurðir niður í 5.200 metra.

Leifur í miðjunni og Gelgin til hægri

Mynd: Leifur í miðjunni og Gyaljin til hægri (Nú er hægt að hvíla dúngallan um sinn í hlýju og þykku lofti Tingri)

Það er yndislegt að finna fyrir því hvað það hlýnar á leiðinni niður þar sem farið er úr frostinu yfir í hlýja sólargeisla. Reyndar á ekki að setja staðar numið við grunnbúðirnar að þessu sinni því nú er stefnt er á heilsdags ökuferð til þess að komast í enn þykkara loftslag í Tingri. En þar hófst hæðaraðlögunin í upphafi ferðar. Þessi partur ferðarinnar er eins mikilvægur og hver annar í undibúningnum við að ná lokamarkmiðinu en í Tingri geta menn endurhlaðið batterýin fyrir lokaslaginn.

Posted in Uncategorized | 1 Comment |

Sterkir vindar í norðurskarði og menn varaðir við því að fara upp í 7.700 metrana

Posted on May 11, 2013 by admin

Gerði óvart svolítið uppistand í búðunum. Það var eitthvað fjaðrafok fyrir utan tjaldið um morguninn og meðal annars ráku nokkrir inn nefið og spurðu mig ráða og hvað ég ætlaðist fyrir og hvort ég ætlaði beint niður. Án þess að vilja taka ákvarðanir fyrir aðra tjáði ég mig um mínar áætlanir, fara aftur upp norðurhrygginn og reyna að ná alla leið upp í 2. Búðir í 7.700 metrum líkt og legið hafði fyrir. Ég ætlaði svo að taka ákvörðun þegar að ég kæmi til baka hversu þreyttur ég yrði og hvort ég færi beint niður í efri grunnbúðir eða hvort ég væri eina nótt í skarðinu og færi síðan niður daginn eftir. Það var ekki fyrr en ég var kominn út í dúnsamfestingnum og með broddana á skónum að ég áttaði mig á því að það var snælduvitlaust veður á hriggnum og sherparnir voru að reyna að fá alla niður. Ég þurfti að leiðrétta við nokkra sem ætluðu að ana með mér út í óséða vitleysuna að það væri ekki nokkurt vit í því. Réttast var að láta náttúruöflin ráða og halda niður.

Sigið niður úr norðurskarði

Mynd: Leifur, sigið niður úr norðurskarði

Leiðin niður er brött og þó að föstu línurnar upp í skarðið séu í brattri gönguleið jafnast þær ekkert á við línuna sem er ætluð fyrir niðurferðina. Sú lína er nánast beint niður bratta hlíðina þar sem sigið er alla leiðina. Fljótlegt og skilvirkt að koma sér niður höfuðvegginn og þaðan er stutt ganga í efri grunnbúðir.

Kv. Leifur

Posted in Uncategorized | Leave a comment |

Skipulagning á minnstu smáatriðum skiptir miklu máli

Posted on May 10, 2013 by admin

Tjaldbúðirnar í Norðurskarði kúra í skjóli undir fjallsbrúninni. Þetta er lítið svæði og tjöldunum er því þjappað þétt saman. Tjaldið okkar Gyaljin var í fremstu röð, alveg á brúninni. Þegar horft er neðanfrá sést að brúnin er ekki slétta heldur yfirhangandi snjóhengja. Það er mælst til þess að ef við erum eitthvað að þvælast um án mannbroddanna að þá sé vissara að halda í spottann og gæta að sér.

Kominn aftur niður í norðurskarð

Mynd: Leifur, menn ræða málin í norðurskarði

Um leið og komið er í skjól tjaldbúðanna tekur alvaran við, þar er strekkings vindur og hafa þarf vel fyrir hverjum hæðarmetra. Þarna var það í fyrsta sinn sem ég notaði sérsaumaða dúnsamfestinginn frá 66°Norður og það var mjög mikilvægt að koma skipulagi á hlutina. Hvar ég hefði varasalvan, hvar væri best að hafa vatnsbrúsann, hvar væri pláss fyrir brjóstsykur og fleiri þannig smáatriði sem skipta heilmiklu máli. Brjóstsykurinn heldur semsagt munninum rökum og kemur í veg fyrir hósta. Góð matarlyst eftir daginn er góðs viti.

Kv. Leifur

Posted in Uncategorized | 3 Comments |

Góð Líðan í 7.000 metrum

Posted on May 10, 2013 by admin

Leið vel í norðurskarði. Líkaminn er greinilega farinn að aðlagast hæðinni þannig að daglegar athafnir eins og að klæða sig í skóna eru orðnar mun auðveldari. Er kominn með klifurfélaga, sherpann Gyaljin og mér líst vel á kappann. Hann er 36 ára, 5 barna faðir og með heilmikla fjallareynslu. Eins og flestir sherparnir hefur hann fengið að vinna sig upp frá grunni, en það er harður skóli þar sem hann byrjaði sem aðstoðarmaður í eldhúsi áður en hann gerðist burðarmaður. Því næst vann hann sig upp í að verða háfjalla-sherpi og hefur hann klifið Cho Oyu nokkrum sinnum, farið á sishapangma og  klifið norðurhlíð Everest 3 sinnum svo eitthvað sé nefnt. Hann er sterkur og stendur sig vel tæknilega þannig að mér líst vel á hann sem traustan ferðafélaga fyrir toppinn.

Gelgin Sherpi í fullum skrúða

Mynd: Leifur, sherpinn Gyaljin í fullum skrúða

Í tjaldvistinni í norðurskarði gerðum við hernaðaráætlun sem fólst einna helst í mat og súrefni. Þar læddust einnig inn smáatriði eins og að við munum aðeins taka einn svefnpoka upp í efstu búðir og hvíla þar undir einni sæng þann stutta tíma sem þar verður dvalist.

Kv. Leifur

Posted in Uncategorized | 2 Comments |

Tjaldað á brúninni í 7.000 m

Posted on May 6, 2013 by admin

Leifur var slappur í maganum í fyrradag, gat lítið borðað og drukkið og frestaði því um einn dag að fara af stað upp í 7.000m. Markmið dagsins var að borða matinn sinn og drekka vel. Leifur átti smá Coca Cola og drakk það með kvöldmatnum og fannst það góð tilbreyting frá tei og mjólkurtei auk þess að það fór vel í magann.
Leifur er kominn með persónulegan sherpa sem honum líst vel á og munu þeir mynda teymi héðan í frá.
Í morgun vaknaði Leifur aftur á móti hress, hafði sofið og dreymt vel, dúðaður í svefnpokanum. Fór í morgunverð, borðaði tvöfaldan skammt og drakk vel. Leifur lagði af stað í 7.000 metrana strax eftir morgunverðinn og gangan upp gekk vel, hún var jöfn og þétt án of mikillar áreynslu. Í 7.000 m hitti Leifur fyrir hluta hópsins sem hafði farið upp 2 dögum fyrr. Á leiðinni upp mætti Leifur einum úr hópnum, bretanum David, hann var þá slappur og á leiðinni niður. David fór upp norðurhliðina á Everest fyrir 2 árum og reyndi við suðurhlíðina í fyrra en varð þá frá að hverfa eftir að hann og félagi hans snéru við í 7.600 m og aðstoðuðu fárveika konu niður.
IMG_1488

Mynd: Leifur (það er örlítill munur á tjaldbúðunum í efri grunnbúðunum og þeim í 7.700, setjum inn nýjar myndir um leið og þær berast)
Það var hvasst í  búðunum í gær og fólk lítið á ferli, sem er heldur ekki gott fyrir aðlögunina. En í þessum aðstæðum er það stanslaus línudans milli þess að vera að aðlagast og þess að vera að éta af sjálfum sér. Vísindin segja að maðurinn lifi ekki nema í 20 daga ef hann liggur kyrr í þessari hæð, svo mikil er áreynslan fyrir líkamann!

Leifur segir að það sé mjög fallegt í búðunum, tjöldin eru alveg á brúninni og sherparnir vilja að þeir sem fara út að pissa fari í línu svo að þeir hrinji ekki niður snarbratta hlíðina. Leifur ætlaði að fara upp í 7.700 m í dag og aftur niður í 7.000, gista þar eina nótt og fara svo aftur niður í ABC/efri grunnbúðirnar og bíðum við nú bara eftir fregnum af því hvort að það plan hafi gengið eftir.

Posted in Uncategorized | Leave a comment |

Íslandsvinur á leið á toppinn í annað sinn

Posted on May 4, 2013 by admin

Í ABC búðunum er Kínverji sem er að fara einn á toppinn í annað sinn en í kringum hann er álíka mikið staff og í kringum allan 13 manna hópinn sem Leifur er í. Þessi tiltekni Kínverji er með marga sherpa, kokka og mikið af súrefni til þess að gera gönguna sem þæginlegasta. Þegar hann fór á toppinn í fyrsta sinn þá lagði hann af stað um miðja nótt í svarta myrkri með fullt af sherpum og helling af súrefni. Gangan gekk það vel fyrir sig að hann náði toppnum fyrir sólarupprás en hann var það snemma á ferðinni að hann þurfti að snúa við aftur af toppnum í myrkri án þess að ná mynd á toppnum. Nú ætlar hann semsagt að fara aftur til þess að ná mynd af sér á toppi veraldar.

IMG_0707

Mynd: Leifur Örn (Það er misjafnt hvað menn leggja á sig til að ná mynd af sér á toppi veraldar)

Kínverjinn vill ekki nota fixuðu línurnar sem sherparnir leggja fyrir alla hópana á svæðinu. Hann lætur leggja sér línur fyrir sig þar sem hann treystir ekki hinum línunum og finnst þær vera of brattar, en hann vill hafa línurnar meira aflíðandi. Þessi Kínverji er Íslendingum vel kunnugur en þetta er enginn annar en sjálfur Huang Nubo.

Posted in Uncategorized | 1 Comment |

Leifur safnar orku eftir erfiða göngu upp í efri grunnbúðirnar

Posted on May 3, 2013 by admin

Leifur er kominn aftur í efri grunnbúðirnar eða ABC búðirnar eins og þær kallast. Gangan uppí búðirnar var mjög erfið þar sem það var bæði kalt og hvasst. Ekki var nóttin skárri þar sem hluti af eldhústjaldinu og klósetttjöldin fuku um koll og það hreinlega skóf inn um allt. Dagurinn í dag fór í það að ganga frá og tjasla saman tjöldunum en annars hafa flestir eytt deginum að mestu leiti inn í tjöldunum sínum að safna orku eftir erfiða göngu og vindasama nótt í ABC búðunum.

554689_10201038412662062_7856763_n

(Hér er Leifur fyrir utan tjaldið sitt í ABC grunnbúðunum en veðrið er ekki eins gott í dag og það er á myndinni sem er tekinn fyrir ca. viku)

Á morgun var planið að fara uppí norðurskarð í 7.000 metra og gista þar í tvær nætur en því verður frestað á meðan að veðrið gengur niður. Næstu daga þarf Leifur hins vegar að koma sér upp í 7.000 metra og gista þar í tvær nætur og koma sér svo í 7.700 metra en Leifur ætlar ekki að gista í þeirri hæð þar sem að það tekur of mikla orku úr líkamanum. Ef allt gengur vel í þessum áfanga ferðarinnar ætti hæðaraðlöguninni að vera lokið að mestu leiti.

 

Posted in Uncategorized | Leave a comment |

Sturta, þvottur og afslöppun í neðri grunnbúðunum

Posted on April 30, 2013 by admin

Átti yndislegan dag í fyrradag, sturta, þvottur og afslöppun í þykku andrúmslofti grunnbúðanna. Seinni hluti leiðangursmanna var að týnast niður fram undir miðnætti. Þeim hafði gengið illa að komast í norðurskarð daginn á undan í skafrenningi og snjókomu og snéru þau því flest við. Í gærmorgun var mjög hvasst í efri grunnbúðunum, klósetttjaldið fauk um koll og það voru svo mikil læti í svefntjöldunum að hópurinn var hálf þvældur og þreytulegur þegar að þau komu hingað í neðri grunnbúðirnar. Eini leiðangursmaðurinn sem eftir er í efri grunnbúðunum er daninn Bo sem ætlar sér að fara súrefnislaus á toppinn og því ætlar hann að halda áfram að strögla þó veðrið sé ekki uppá það besta. Við verðum hinsvegar hér í slökun í dag en svo fer ég að fylgjast með veðurspánni til að komast aftur upp í efri grunnbúðir og halda áfram hæðarbröltinu og undirbúningnum fyrir toppaslaginn.

IMG_1458

Leifur og Bo (til vinstri)  á blessunarhátíðinni í efri grunnbúðunum

Kv.
Leifur

Posted in Uncategorized | 1 Comment |

Mikill vindur á fjallinu og hópurinn kominn aftur í hlýtt andrúmsloft neðri grunnbúðanna

Posted on April 30, 2013 by admin

Á laugardaginn ákvað hópurinn að leggja á sig 22 km göngu niður í grunnbúðir þar sem það er hlýrra og örlítið fleiri súrefnismólikúl í andrúmsloftinu. Gangan er falleg en þetta er langur dagur og því er rétt að njóta nokkurra daga hérna áður en gengið er til baka upp í efri grunnbúðirnar en gangan uppeftir mun taka 2 daga.
Svei mér þá ef gróðurlausir melarnir undir jökulkambinum eru ekki fallegri en seinast þegar að við vorum hér. Þá var skítakuldi og erfitt að ná andanum. Nú er loftið þykkt og í samanburði við frostið í efri grunnbúðunum þá er bara hlýtt og notalegt hér. Ætla að njóta þess munaðar að fara í sturtu seinna um daginn þegar það fer að hlýna en það myndi krefjast talsverðrar hörku að reyna slíkt í efri grunnbúðunum.
IMG_1488

Mynd: Leifur Örn (hér má sjá mynd tekna yfir efri grunnbúðirnar)

Ég hefði sjálfur kosið að  dvelja í efri grunnbúðunum í nokkra daga til viðbótar og vera örlítið verr á mig kominn áður en ég færi niður í þykka loftið í grunnbúðunum í 5.200 m. Í þeirri hæð er mögulegt fyrir mannskeppnuna að lifa, halda vikt og jafna sig. Kvillarnir sem eru helst að hrjá mann í hæðinni eru smávægilegir en óþæginlegir. Leiðinlegastur er hóstinn. Við innöndun á köldu loftinu á daginn kveikir maður á hóstaviðbrögðum ein og þegar lagst er útaf á kvöldin en eftir kröftugt hóstakast er maður alveg að kafna. Kvefslím gerir andadráttinn erfiðan þegar lagst er útaf og stundum er betra að setjast upp í svefnpokanum á nóttinni til þess að ná betur að anda. Það er gott að lofa nasaveggjunum að jafna sig aðeins og gróa en þótt að ég hafi borið olíu og feitt krem inn í nasavængina er ég stöðugt að sníta blóði. Eins og oft hefur áreinslan komið af stað frunsu og sólsprungnum vörum. Ekkert af þessu er alvarlegt og mun örugglega koma aftur þegar að ég hækka mig meira og sef í fyrstu búðum í 7.000 m hæð sem er næsta skref í aðlöguninni. Engu að síður er gott að fá smá hvíld í aðstæðum sem reyna ekki eins mikið á líkamann.

Kv Leifur

Posted in Uncategorized | Leave a comment |
« Previous Page
Next Page »

Pages

  • Fjölmiðlar
  • Framandi fjöll með Leifi og Vilborgu
  • Leiðangur 2013
  • Um Everest
  • Um Leif Örn

Archives

  • October 2013
  • May 2013
  • April 2013
  • March 2013

Categories

  • Uncategorized (40)

WordPress

  • Log in
  • WordPress

Subscribe

  • Entries (RSS)
  • Comments (RSS)

Pages

  • Fjölmiðlar
  • Framandi fjöll með Leifi og Vilborgu
  • Leiðangur 2013
  • Um Everest
  • Um Leif Örn

Archives

  • October 2013
  • May 2013
  • April 2013
  • March 2013

Categories

  • Uncategorized (40)

WordPress

  • Log in
  • WordPress

CyberChimps WordPress Themes

© Leifur á Everest 2013