Eftir að við kláruðum aðlögunina þá héldum við niður til hvíldar og nú bíðum við eftir veðurglugga til þess að takast á við toppinn. Úr efri grunnbúðunum er langur göngudagur niður í grunnbúðir. Til þess að komast enn neðar tekur við heils dags akstur eftir mjög slæmum vegslóða niður í 4.200 m. Tilgangur ferðarinnar er að gefa líkamanum tækifæri til þess að jafna sig á hóstanum og öðrum líkamlegum kvillum sem fylgja hæðinni. Ein af þeim aukaverkunum sem fylgja hæðinni er að bragðskynið nánast hverfur og allur matur verður hálf bragðlaus sem hjálpar ekki í baráttunni við lystarleysið.
Mynd: Leifur, komnir aftur í grunnbúðirnar og bíða eftir veðurglugga
Á leiðinni niður stoppuðum við í hádegismat þar sem við gerðum smávæginleg mistök í pöntuninni á matnum. Pantað var sameiginlega fyrir alla en auk þess pantaði hver fyrir sig þannig að borðið var hlaðið réttum. Þarna hefði getað stefnt í óefni en um leið og við fundum hversu vel maturinn bragðaðist og hversu sterkt bragðskynið var brast á átveisla þar sem hver einasti réttur var étinn upp til agna. Þetta lagði línuna fyrir seinustu daga þar sem hópurinn hefur borðað alveg ótrúlega mikið. Þó að ekki hafi tekist að lækna hóstann þá snéru allir endurnærðir til baka í grunnbúðirnar þar sem hin eiginlega bið eftir réttum veðuraðstæðum hefst.
Kv. Leifur