Um Leif Örn
Leifur Örn Svavarsson
Leifur Örn Svavarsson var einn af stofnendum Íslenskra Fjallaleiðsögumanna 1994 og er enn í dag einn af aðaleigendum fyrirtækisins. Hann hefur farið allar helstu ferðir ÍFLM sumar sem vetur, jafnt innanlands sem utan og er einn reyndasti fjallaleiðsögumaður landsins.
Leifur hefur farsællega stýrt leiðöngrum Íslenskra Fjallaleiðsögumanna á hæstu fjöll margra heimsálfana eins og Elbrus – hæsta fjall Evrópu, Aconcagua- hæsta fjall Suður Ameríku og Mt. Vinson- hæsta fjall Suðurheimskautslandsins.
Leifur hefur farið í fjölda einkaleiðangra í Alpana, á Denali/McKinley og á mörg hæstu fjöll jarðar. Leifur hefur meðal annars klifið Pik Lenin (7.134 m) í erfiðum aðstæðum í vetrarbyrjun og skemmst er að minnast er hann náði toppi Cho Oyu, sjötta hæsta fjalli jarðar 8.202 m.
Grænland og heimsskautasvæðin eru heimavöllur Leifs. Hann hefur leitt tvo af leiðöngrum Íslenskra Fjallaleiðsögumanna yfir Grænlandsjökul, verið leiðangurstjóri í leiðöngrum ÍFLM á hæsta fjall Grænlands, Gunnbjörnsfjall, tind í afskekktum hluta austur Grænlands, ásamt Dome og Eijnar Mikkelsen. Meðal leiðangra Leifs til Grænlands má nefna 29 daga þjálfunarferð með Indverska herinn á Grænlandsjökli til þess að þjálfa þá fyrir gönguskíðaferð á Suðurpólinn og 18 daga heimskautaþjálfun með sérsveit bandaríska hersins til Thule, nyrstu byggðar á Grænlandi.
Margir leiðangra Leifs eru einstakir eins og Nanoq leiðangurinn á Mt Forel árið 2000. Þá fór hann ásamt Guðjóni Marteinssyni á hundasleðum upp á Grænlandsjökul, gekk síðan á skíðum norður jökulinn að Forel fjalli, kleif fjallið og gekk síðan 150 km leið um torsótt fjallasvæði til byggða á Austur Grænlandi.
Leifur er óþrjótandi fræðslubrunnur um Grænland, hefur heimsótt nánast hvert byggðarlag í landinu og farið fjölda göngu- og skíðaferða víðsvegar á Grænlandi. Um tíma var Leifur með fasta þætti í ríkisútvarpinu um könnunarsögu Grænlands, leiðangra og heimskautaferðir.
Leifur er jarðfræðingur frá Háskóla Íslands með framhaldsmentun í snjóflóðum. Leifur hefur lokið Level 2 snjóflóðamenntun kanadíska snjóflóðasambandsins og hefur síðastliðna vetur stýrt snjóflóðaeftirliti Veðurstofu Íslands sem vaktar snjóflóðahættu yfir byggð á Íslandi.
Leifur hefur mikla reynslu af fyrirlestrahaldi og kennslu. Hann hefur haldið fjölda fyrirlestra og myndasýninga. Leifur var yfirkennari Björgunarskóla Slysavarnarfélagsins Landsbjargar til margra ára. Þar sá Leifur meðal annars um menntun leiðbeinenda í fjallamennsku, fjallabjörgun, snjóflóðum, gerði námskeiðslýsingar og skrifaði kennslubækur sem enn eru í notkun.
Leifur var flokkstjóri undanfarahóps Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík í meira en áratug og stjórnaði aðgerðum björgunarsveitarmanna á vettvangi í mörgum stórum björgunaraðgerðum eins og snjóflóðunum á Flateyri og fjallabjörguninni úr Glymsgili ásamt fjölda annara aðgerða.
Leifur hefur stýrt fjallgöngu og jöklaleiðsagnarhluta Íslenskra Fjallaleiðsögumanna og séð um þjálfun jöklaleiðsögumanna sem yfirleiðsögumaður. Leifur hefur verið fararstjóri í fleiri ferðum á Hvannadalshnjúk heldur en tölu verður á komið, auk ferða á Hrútsfjallstinda, Þverártindsegg, Sveinstind og göngu og skíðaferða á aðra hæstu jökla og fjallstinda landsins.
Leifur er mjög virkur í fjallamennsku og hefur klifrað fjölda nýrra klifurleiða á Íslandi seinustu áratugi. Þrátt fyrir að öðru hverju megi ná Leifi á skrifstofu Íslenskra Fjallaleiðsögumanna unir hann sér best með ísexi í hönd eða skíði á fótunum.
Leifur og Sigrún. Gangi ykkur allt í hag og góða skemmtun. Gæfan verði með þér á toppinn Leifur og niður aftur!
Bestu kveðjur
Hlynur Jónasson
Gangi þér vel meistari Leifur! Komdu heill heim.
Kæri Leifur,
Við hjónin höfum farið í þinni fylgd upp á nokkra toppa og tinda á Íslandi í gegnum árin og hefur þú alltaf verið í sérstöku uppáhaldi hjá okkur.
Við viljum óska þér og föruneytinu alls hins besta í ferðinni, komdu heill heim og vonandi verðum við þeirrar ánægju aðnjótandi fljótlega að fara í göngu þar sem þú leiðir hópinn 🙂
Allra besta kveðja og farðu varlega,
Alma og Snæþór